Kírópraktorafélag Íslands

Hvað gerir kírópraktor? Prenta út

Kírópraktorinn greinir á grundvelli sjúkrasögu, klínískrar rannsóknar og röntgenrannsókna, ef við á.hvadgerir

Sjúkrasagan
Þegar þú heimsækir kírópraktor er farið vandlega yfir sjúkrasögu þína og þú reynir að útskýra á þinn hátt það sem að þér er. Kírópraktorinn nýtir sér svo þessar upplýsingar til þess að spyrja ákveðinna spurninga til þess að fá sem bestan skilning á samhengi og ástæðum sem gætu skipt máli. Kírópraktorinn aflar sér auk þess upplýsinga um fyrri sjúkdóma og meiðsli, lyfjanotkun, álag á heimili og í vinnu og svo framvegis eftir því sem við á.

Sjúkrasagan er alltaf mikilvæg forsenda greiningarferlisins. Hún er skráð í sjúkraskrá sjúklings og varðveitt í samræmi við þær kröfur sem heilbrigðisyfirvöld gera til löggiltra heilbrigðisstétta.

Klínísk skoðun og sjúkdómsgreining
Rannsóknin hefst með því að kírópraktor kannar vandlega limaburð sjúklings og líkamsbyggingu, vöðva og hreyfimynstur. Kírópraktorinn kortleggur svo skipulega starfsemi tauga- og stoðkerfis líkamans til þess að koma auga á ranga starfsemi liðamóta og vöðva og meta hvort það gæti tengst einkennum sjúklingsins.

Kírópraktorinn þreifar á sjúklingnum til þess að finna hvaðan sársauki í sinafestingum, vöðvakerfi, liða- og stoðkerfi o.s.frv. gæti komið. Öll liðamót í mjaðmagrind, hrygg og hnakka eru könnuð vandlega með sérstökum þreifihreyfingum í leit að læstum liðum. Oft finnast sársaukapunktar í vöðvum (gikkpunktar) og bólgnar sina- og vöðvafestingar sem rekja má til ójafnvægis í vöðvum sem geta verið of stuttir, spenntir eða veikir. Röng starfsemi liða og vöðva getur einnig leitt til einkenna langt frá þeim stað þar sem vandann er að finna. Þetta er kallað leiðniverkur.

Mikilvægt er að sjúklingurinn segja nákvæmlega frá um sárauka sem fram kemur við klínísku rannsóknina. Yfirleitt tekst kírópraktornum við skoðun sína að kortleggja hvar sársaukinn er og hvaða hreyfingar valda sársaukanum, sé hægt að rekja hann til stoðkerfis líkamans. Þannig getur kírópraktorinn gert sjúkdómsgreiningu á grundvelli virkni þannig að hægt sé að skipuleggja meðferð í þeim tilgangi að koma á eðlilegri virkni á ný.

Rannsóknir kírópraktors fela í sér sígildar beinafræðilegar prófanir. Gerðar eru taugafræðilegar rannsóknir á viðbrögðum í sinum, tilfinningu og vöðvastyrk til þess að kanna hvort um sé að ræða minnkaða tilfinningu og/eða lömun þegar grunur leikur á áhrifum á taugarót (þrýstingi á taug sem rekja má til brjóskloss eða kölkunar).

Að klínískri rannsókn lokinni metur kírópraktorinn hvort nauðsynlegt sé að fara í röntgenrannsókn eða gera ýtarlegri rannsóknir áður en sjúkdómsgreining er ákveðin og meðferð hafi, ef við á.

Kírópraktorinn hefur aflað sér nægjanlegrar fræðilegrar og verklegrar þekkingar í námi sínu til þess að taka afstöðu til þess að hvaða marki meðferð kírópraktors hentar sjúklingnum án þess að læknisskoðun þurfi að fara fram. Leiki grunur um undirliggjandi lífrænan sjúkdóm er sjúklingi vísað til læknis til frekari eftirfylgni.
hverjigangatil

Röntgen/CT/MR
Myndgreiningarrannsóknir af ýmsu tagi eru oft gerðar til viðbótar klínískri rannsókn. Kírópraktorinn er menntaður til þess að taka röntgenmyndir af beinagrind og meta myndirnar sjálfur. Margir ráða yfir eigin röntgenbúnaði sem er viðurkenndur af opinberum aðilum og háður eftirliti þeirra. Kírópraktorar geta einnig beðið um háþróaðri rannsóknir á borð við CT og MR við röntgenstofnanir og sjúkrahús. Tryggingastofnun stendur straum af þessum kostnaði á sama hátt og vegna læknatilvísunar.

Kírópraktorar notfæra sér röntgenmyndir í greiningu einkum til þess að útiloka frábendingar um meðferð, til dæmis brot, bólgur og aðra alvarlega sjúkdóma. Oft er hins vegar engin ástæða til þess að taka röntgenmyndir áður en meðferð kírópraktors hefst nema sjúkrasagan bendi til annars. Röntgenmyndir geta einnig gefið kírópraktor gagnlegar upplýsingar um slitbreytingar, skekkjur og meðfædda samgróninga í beinagrind (frávik) sem geta haft áhrif á það hvaða meðferðartækni kírópraktorinn velur.

Leiki grunur á áhrifum á taugarót vegna brjóskloss má nota CT- eða MR-rannsókn til þess að staðfesta greiningu.

Þjálfun og forvarnir
Það er mikilvægur þáttur í meðferðaráætlun kírópraktors að kenna sjúklingnum að gæta líkama síns og að bregðast sem best við og beita forvörnum gegn því sem angrar hann. Almennt eru menn sammála um að mikilvægt sé að setja sér það markmið að komast sem fyrst aftur út í atvinnulífið og taka upp daglegar athafnir sínar á ný. Flestir sjúklingar með verkjaeinkenni og álagsskaða hafa einnig mikið gagn af hreyfingu og sjálfsþjálfun.

Kírópraktorinn getur leiðbeint með heimaæfingar á grundvelli einstaklingsbundinna þarfa. Þar getur verið um að ræða styrktarþjálfun, teygjuæfingar, þolæfingar og slökunartækni.

Þegar sjúklingar glíma við langvarandi eða endurtekna verki getur reynst gagnlegt að stunda endurhæfandi sérþjálfun undir eftirlit kunnáttumanns og þetta jafnvel verið nauðsynleg viðbót við meðferðina til þess að ná fullnægjandi árangri með meðferð og fyrirbyggja afturkipp. Sumir kírópraktorar annast þennan hluta meðferðarinnar sjálfir, aðrir eru í samstarfi við sérhæfða þjálfara með full réttindi.

Hverjir leita til kírópraktors?
Kírópraktorar eru sérfræðingar í því að greina vandamál í tauga- og stoðkerfi líkamans og að veita meðferð við þeim.sagan

Vandamál i baki eru ein helsta ástæða þess að fólk leitar aðstoðar kírópraktors en færri vita að kírópraktorar veita einnig meðferð við öðrum vandamálum sem varða ranga virkni og sársauka í hreyfikerfi líkamans. Kírópraktorar glíma auk hryggverkja við vandamál á borð við höfuðverk, svima, verki í hnakka, öxlum og handleggjum, verki í brjósti, mjaðmagrind og mjöðmum og verki í hnjám, ökklum og fótum.

Kírópraktorar annast sjúklinga á öllum aldri, allt frá ungbörnum til aldraðra, en flestir eru þeir þó á þeim aldri sem fólk stundar fasta vinnu.
Stoðkerfisvandamál eru ein algengasta ástæða þess að fólk fer til læknis, er fjarverandi frá vinnu eða býr við örorku. Kostnaðurinn er gríðarlegur, bæði fyrir samfélagið og einstaklinginn sem þarf að búa við það að lífsgæðum hans minnka.

Sagan
Kírópraktík byggist á greiningu, meðferð og forvörnum vegna vandamála í tauga- og stoðkerfi líkamans.

Meðferðaraðferðin kírópraktík byggist einkum á því að koma á eðlilegri starfsemi hreyfikerfis líkamans og taugakerfi hans að nýju þegar einhver vandamál hafa látið á sér kræla.

Orðið kírópraktík á sér grískar rætur og þýðir að veita meðferð með höndum. Sagan hófst fyrir rúmri öld í Bandaríkjunum þegar upphafsmaðurinn að kírópraktík, D.D. Palmer (1845 - 1914) kynnti kenningu sína um samhengið í starfsemi hryggsúlunnar og taugakerfisins.

Kírópraktík hefur þróast mjög á undanförnum áratugum og er nú nútímaleg heilbrigðisstétt sem býr yfir mikilli þekkingu á helsta viðfangsefni sínu, stoðkerfisvandamálum. Kírópraktíkin nær stöðugt betri fótfestu í hinu hefðbundna heilbrigðiskerfi og líka á sviði rannsókna og menntunar.